Snilldin við rakstur á píkunum okkar

Ég horfði á allar þáttaraðirnar af Sex and the City um daginn, undir því yfirskini að ég væri að gera félagsfræðistúdíu. Ég viðurkenni fúslega að ég hafði mjög gaman af, þetta eru skemmtilegir þættir og margt jákvætt hægt að segja um þá. Reyndar margt alveg rosalega neikvætt líka.

Það sem mér finnst merkilegast við þá er að þeir endurspegla algjörlega ríkjandi viðhorf til kvenna og kynlífs. Ef konurnar sem eru miðdepill þáttanna gera eitthvað sem ekki samrýmist ríkjandi viðhorfum er það mjög skýrt tekið fram og það fer ekki framhjá manni. Sex and the City raðirnar eru sex gerðar á sjö árum svo það er vel hægt að merkja breytingar á viðhorfum í gegnum þáttaraðirnar.

Í þætti í fyrstu þáttaröðinni, sem kom út fyrir rúmum tíu árum  lýsir Samantha, sem hefur mjög frjálslegt viðhorf til kynlífs, yfir undrun sinni á því að hjásvæfa hennar biður hana um að raka af sér skapahárin. Ég varð eins undrandi og Samantha, nema undrun mín stafaði af því að ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að ekki lengra er síðan píkurakstur þótti bara ekkert eðlilegur.

Mig minnir að það hafi síðan verið í fjórðu þáttaröðinni sem Samantha er með hjásvæfu sem biður hana um að leyfa skapahárunum að vaxa. Samantha gefst þó mjög fljótlega upp á því.

Viðhorfin höfðu alveg snúist við á örfáum árum og það virðist enginn hafa veitt því neina sérstaka athygli.

Hreinlætið ofar öllu
Hvaðan í ósköpunum kemur þessi krafa á fólk að fjarlægja öll hár af kynfærum sínum?

Margir, aðallega kynja- og kynfræðingar, hafa bent á beint samband á milli aukinnar eftirspurnar á barnaklámi og æskudýrkun annars vegar og rakstri kynfæra hins vegar[1]. Það vill auðvitað enginn viðurkenna að eitthvað sem þú gerir, á hverjum degi jafnvel, gerirðu vegna áhrifa barnakláms. Miklu algengara viðhorf er það að þetta sé svo hreinlegt. Að þú rakir eða vaxir hárin af kynfærum þínum vegna þess að hárin geri þau svo skítug.

Það er rangt. Þvert á móti erum við með hár á kynfærum okkar til þess að vernda þau gegn sýkingum. Líkamshár okkar eru fyrsta vörn líkamans gegn óæskilegum hlutum. Enn fremur eykur þessi blessaði rakstur líkur á inngrónum hárum. Kynfærasvæðið er óhreint og inngróin hár eru sár. Bakteríurnar, sem grassera þarna við kynfærin, eiga því greiða leið í sárin og það geta myndast graftarpollar. Þeir geta orðið svo svæsnir að það þurfi sýklalyf og jafnvel spítalavist vegna þeirra. Í alvöru.

Ergó. Með rakstrinum fjarlægir þú ekki aðeins það sem ver þig gegn sýkingu heldur geturðu beinlínis búið til sýkingu með rakstrinum[2],

Helvítis klámvæðing
Það er nefnilega bara einn vettvangur sem sýnir kynfæri kvenna ítrekað og hefur mikil áhrif, það er klámiðnaðurinn. Það er ekkert útúr korti að ætla klámi og klámvæðingu þessa snöggu viðhorfsbreytingu hins vestræna samfélags á rakstri kynfæra. Ekki bara vegna þess að barnaklám er eftirsótt og þar af leiðandi mjög þrautseig tegund kláms heldur líka vegna þess að einmitt um þetta leyti, í kringum aldmótin 2000, varð til gósentíð kláms og klámvæðingar[3].

Internetið fór á þessum árum úr því að vera notað af fáum í það að vera hluti af daglegu lífi allra. Þetta tímabil markar upphaf þeirrar kynslóðar sem oft er nefnd klámkynslóðin; kynslóð sem alist hefur upp við gríðarleg áhrif kláms. Síðan klám varð hluti af daglegu lífi ungs fólks hefur klámiðnaðurinn mótað birtingarmynd, ekki bara kynlífs, heldur einnig hlutverka kvenna og karla í dægurmenningu samtímans. Sú dægurmenning hefur síðan gríðarleg áhrif á sjálfsmynd okkar og það hvar við staðsetjum okkur í samfélaginu. Oft með áherslu á hvers kyns við erum og hegðun okkar í kynlífi.

Samfélagsábyrgð vs. klámvæðing
Nú spyr ég mig, sem staðið hefur í allskyns viðreynslum við umbætur á samfélaginu, hvernig getur róðurinn að þeim umbótum verið svona þungur á meðan klámvæðingunni tekst þegjandi og hljóðalaust að telja flestum, ekki bara konum, heldur körlum einnig, trú um að hár á píkunni sé ógeðslegt?

Ég held að svarið felist í samfélagsmeini, sem að einskorðast ekki bara við klám og klámvæðingu, heldur helst í hendur við öll viðhorf okkar og skoðanir. Okkur skortir gagnrýna hugsun. Við forðumst að gagnrýna og efast um það sem að er gerast í samfélaginu en fylgjum um leið, eins og hjörð, þeim er valdið hafa.

Það er það sem er hrikalegast við þetta. Klámiðnaðurinn hefur svo mikil völd. Miklu meiri völd en við gerum okkur grein fyrir eða þorum að viðurkenna. Það sem meira er, það tekur hann ekki nema nokkra mánuði að breyta gildismati okkar og viðhorfi til kynheilbrigðis og kynlífs. Það leitar óneitanlega á mann spurningin; Hvar endar þetta eiginlega?

Þegar óheilbrigður rakstur, súludans og kynbundið ofbeldi sem birtist iðulega í auglýsingum[4] er orðinn hluti af okkar daglega lífi, hluti af því sem við veitum ekki tiltakanlega athygli, er þá ekki komið gott? Er ekki kominn tími til að við vöknum af þessum væra gagnrýnislausa svefni og spyrjum okkur, hvers konar samfélag viljum við að komandi kynslóðir búi í?


[1] http://jci.sagepub.com/content/26/2/113.short

[2] http://cid.oxfordjournals.org/content/45/3/e29.short

[3] http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0379073808003708

[4] http://fap.sagepub.com/content/18/1/35.short


Halla Tryggvadóttir

er fædd 6. febrúar 1988. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð vorið 2007 og nemur nú hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Hún er formaður Femínistafélags Háskóla Íslands.
Þessi grein birtist í Tilkynningar. Varanleg slóð.